Hér má finna skilgreiningar á helstu kennitölum í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar. Frekari upplýsingar má finna í frumvarpi að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2023 og fimm ára áætlun 2023-2027 ásamt greinargerð.
Veltufé frá rekstri í hlutfalli af rekstrartekjum (Working capital provided by operating activities/Total revenue)
Mælt sem hlutfall veltufjár frá rekstri af rekstrartekjum. Kennitalan gefur vísbendingu um hversu hátt hlutfall af rekstrartekjum er til ráðstöfunar fyrir afborganir skulda og skuldbindinga og til fjárfestinga. Því hærra sem þetta hlutfall er því meiri er geta fyrirtækis til að vaxtar og viðhalds eigna.
Hreinar skuldir (Net debt)
Hreinar skuldir eru reiknaðar sem langtímaskuldir og leiguskuldir að frádregnum langtímakröfum og handbæru fé, ásamt næsta árs afborgunum. Hreinar skuldir lýsa þannig skuldastöðu þegar tekið hefur verið tillit til peningalegra eigna.
Veltufjárhlutfall (Current ratio): Hlutfall veltufjármuna á móti skammtímaskuldum.
Sýnir hæfi fyrirtækis til að inna af hendi nauðsynlegar greiðslur á næstu tólf mánuðum. Hlutfall innan við einn gefur vísbendingu um að rekstrareiningin hafi ekki getu til að standa við skammtímaskuldbindingar sínar á næstu mánuðum. Þegar horft er til A- sveitarsjóðs sem er að stórum hluta fjármagnaður með lögbundnum skatttekjum, ætti að gera kröfu um hærra hlutfall en hjá fyrirtækjum, þ.e. að minnsta kosti 1,20 en sömu kröfu þarf ekki að gera til samstæðunnar.
Skuldaþekjuhlutfall
Skuldaþekjuhlutfallið er reiknað sem hlutfall veltufjár frá rekstri að undanskildum arðgreiðslum og viðbættum vaxtakostnaði ársins á móti vaxtagreiðslum og afborgunum lána-, leigu- og lífeyrisskuldbindinga. Skuldaþekjuhlutfallið sýnir getu reglubundins reksturs til að standa undir vaxtagreiðslum og afborgunum skuldbindinga á ári hverju. Ef hlutfallið er undir 1 þá eru vaxtagreiðslur og afborganir ekki fjármagnaðar. Í raun þarf hlutfallið að vera talsvert yfir 1 þar sem veltufé frá rekstri þarf einnig að duga fyrir fjárfestingum.