Hér má finna skilgreiningar á helstu kennitölum í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar. Frekari upplýsingar má finna í frumvarpi að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2023 og fimm ára áætlun 2023-2027 ásamt greinargerð.
Veltufé frá rekstri í hlutfalli af rekstrartekjum (Working capital provided by operating activities/Total revenue)
Mælt sem hlutfall veltufjár frá rekstri af rekstrartekjum. Kennitalan gefur vísbendingu um hversu hátt hlutfall af rekstrartekjum er til ráðstöfunar fyrir afborganir skulda og skuldbindinga og til fjárfestinga. Því hærra sem þetta hlutfall er því meiri er geta fyrirtækis til að vaxtar og viðhalds eigna.
Veltufjárhlutfall (Current ratio): Hlutfall veltufjármuna á móti skammtímaskuldum.
Sýnir hæfi fyrirtækis til að inna af hendi nauðsynlegar greiðslur á næstu tólf mánuðum. Hlutfall innan við einn gefur vísbendingu um að rekstrareiningin hafi ekki getu til að standa við skammtímaskuldbindingar sínar á næstu mánuðum. Þegar horft er til A- sveitarsjóðs sem er að stórum hluta fjármagnaður með lögbundnum skatttekjum, ætti að gera kröfu um hærra hlutfall en hjá fyrirtækjum, þ.e. að minnsta kosti 1,20 en sömu kröfu þarf ekki að gera til samstæðunnar.
Fjárhagsskilyrði skv. 64. grein sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011:
1) Jafnvægisregla: Samanlögð rekstraútgjöld skulu yfir hvert 3ja ára tímabil rúmast innan samanlagðra rekstrartekna
2) Skuldaregla: Hlutfall heildarskulda og skuldbindinga af reglulegum tekjum skal vera innan við 150%
Með ákvæði 64. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 er sveitarfélögum almennt skylt að takmarka skuldir og skuldbindingar samstæðu A- og B-hluta við 150% af reglulegum tekjum skv. nánari skilgreiningu í reglugerð (nr. 502/2012). Samkvæmt bráðabirgðaákvæði III í lögunum getur sveitarstjórn ákveðið hvort hún nýtir sér heimild að undanskilja veitu- og orkufyrirtæki þegar kemur til mats á fjárhagsstöðu sveitarfélagsins skv. 64. gr. á aðlögunartíma sem er 10 ár frá gildistöku laganna. Borgarráð hefur samþykkt að nýta sér þessa heimild.
Skv reglugerð nr. 502/2012 um fjárhagsleg viðmið og eftirlit með fjármálum sveitarfélaga segir að orku- og veitufyrirtæki skuli ekki tekin með við mat á fjárhagsstöðu ef heildarútgjöld allra veitu- og/eða orkufyrirtækja sem færð eru í B-hluta eru umfram 15% af heildarútgjöldum A- og B-hluta í reikningsskilum sveitarfélags eða ef heildarskuldir og skuldbind¬ingar eru umfram 30% af heildarskuldum og skuldbindingum.
Skuldaviðmið: Hlutfall heildarskulda og skuldbindinga af reglulegum tekjum að teknu tilliti til ákveðinna frádráttarliða minna en 150%
Skuldaviðmið er mælt sem hlutfall heildarskulda og skuldbindinga af reglulegum tekjum að teknu tilliti til ákveðinna frádráttarliða sbr. 14. gr. reglugerðar nr. 502/2012. Í tilviki Reykjavíkurborgar er dregið frá núvirði lífeyrisskuldbindinga sem áætlað er að komi til greiðslu eftir 15 ár og síðar (sbr. skýringu 44 í ársreikningi) og einnig er hreint veltufé dregið frá ef það er jákvætt (veltufjármunir að frádregnum skammtímaskuldum).